Anna Magdalena den Herder

Anna Magdalena den Herder, víóluleikari, hóf fiðlunám fjögurra ára að aldri. Aðeins tíu ára gömul fékk hún inngöngu í Konservatoríið í Utrecht og var Joyce Tan kennari hennar. Hún lauk BA-námi með láði frá Konservatoríinu í Amsterdam þar sem Marjolein Dispa var kennari hennar og síðar lauk hún meistaranámi frá Fontys konservatoríinu í Tilburg. Hún hefur einnig sótt reglulega tíma heima fyrir og erlendis, m.a. hjá Wolfram Christ, Nobuko Imai og Erwin Schiffer.

 

Anna Magdalena hefur tekið þátt í námskeiðum hjá fjölmörgum þekktum tónlistarmönnum, víðs vegar um Evrópu, m.a. við Kronberg-akademíuna í Þýskalandi og Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Sviss (IMAS) þar sem hún naut leiðasagnar Seiji Ozawa í strengjakvartettsamspili.

 

Anna Magdalena hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum víða um Holland í verkum eftir Walton, Mozart, Shostakovich, Martinu, Telemann, Hindemith og fleiri. Hún hefur einnig komið fram með fiðluleikurunum Gordan Nicolic, Lísu Ferschtman, Alenu Baeva, Candidu Thompson, sellóleikurunum Colllin Car, Dmitry Ferschtman, Nicolas Altstaedt, Gary Hoffman og Lynn Harrell. Anna Magdalena er fastur meðlimur í Amsterdam Chamber Soloists.

 

Anna Magdalena hefur unnið til fjölmargra verðlauna og viðurkenninga, m.a. vann hún fyrstu verðlaun í Kersjes-keppninni árið 2009 og jafnframt fyrstu, önnur og áhorfendaverðlaunin í National Amsterdam víólukeppninni.

 

Anna er aðstoðarleiðari í Hollensku kammersveitinni  sem starfar undir listrænni stjórn fiðluleikarans Gordan Nicolic. Anna hefur jafnframt komið fram með fjölmörgum hljómsveitum í Hollandi, ma. Suður-Hollensku fílharmóníuhljómsveitinni, Het Gelders Orkest, Concertgebouw hljómsveitinni, Amsterdam Sinfonietta og Fílharmóníuhljómsveit Hollands.

Anna Magdalena leikur á hollenska lágfiðlu af Cuypers gerð, smíðuð 1766 sem hún er með að láni frá National Muziekinstrumenten Fonds (NMF).

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon