Una Sveinbjarnardóttir
Una er konsertmeistari Kammersveitar Reykjavíkur og starfar sem konsertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Una kemur reglulega fram sem fiðluleikari ein og í samstarfi. Hún hefur spilað á fjölda diska, meðal annars með Björk, (Homogenic, Vulnicura, Fossora), Jóhanni Jóhannssyni og Kammersveitinni og leikið með Ensemble Modern, Útvarpshljómsveit Berlínar RSB og hljómsveit Þýsku óperunnar. Hún hefur unnið með Pierre Boulez, Krystof Penderecki, Mstislav Rostropovich, Marek Janowski og Heinz Holliger, einnig Atla Heimi Sveinssyni, Helmut Lachenmann og fjölda samtímatónskálda. Fyrsta plata Unu Fyrramál kom út 2007, önnur plata hennar Umleikis með eigin tónsmíðum fyrir sólófiðlu kom út 2014 og platan Last Song með Unu og Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara árið 2021. Una samdi tónlist við heimildamynd Höllu Kristínar Einarsdóttur Konur á rauðum sokkum og tónlist við Dúkkuheimili 2 í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur í Borgarleikhúsinu. Önnur verk eru til dæmis strengjakvartettinn Opacity op. 12, El Desnudo, Missir, Myrkur og regn, Gátt, Sléttubönd og Vitni ásamt Óbó, Ólafi Birni Ólafssyni fyrir Gjörningaklúbbinn, en það var frumflutt í Listasafni Íslands í mars 2022. Í janúar 2024 frumflutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verk Unu og Óbó, Flökkusinfóníu Gjörningaklúbbsins á Myrkum Músikdögum. Á Myrkum músíkdögum var einnig frumflutt nýtt píanótríó Unu, Reykjavík Blues af Fidelio Trio frá London. Una er stofnfélagi í Strokkvartettinum Sigga (Siggi String Quartet) sem hlaut nýlega íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu ársins, Atli Heimir Sveinsson: Complete String Quartets. Hún kennir við LHÍ, MÍT og Nýja Tónlistarskólann. Una og Arngerður María Árnadóttir semja nú tónlist fyrir plötu undir merkjum Translations.