Eiríkur Örn Pálsson
Eiríkur Örn hóf tónlistarnám sitt hjá Páli P. Pálssyni og síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann fór í framhaldsnám til Bandaríkjanna og lauk þaðan bæði BA- og MFA-gráðum.
Eiríkur Örn er fastráðinn trompetleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1996. Hann hefur verið meðlimur Caput hópsins frá upphafi og hefur leikið á fjölmörgum diskum hópsins auk þess að hafa farið í tónleikaferðir með hópnum víða um lönd. Hann leikur reglulega með Kammersveit Reykjavíkur, hljóðritað með sveitinni fjölmarga diska, m.a. trompetkonserta eftir J.F. Fasch og Leopold Mozart og farið í tónleikaferðir m.a. til Kína, Japans og Rússlands.
Trompetleikur Eiríks Arnar hefur hljómað í mörgum leiksýningum Þjóðleikhússins, Borgarleikhússins og Íslensku óperunni. Hann lék einnig um tíma með Stórsveit Reykjavíkur og Tamla-sveitinni. Auk þess hefur hann leikið inn á fjölmargar upptökur fyrir kvikmyndir, sjónvarp og hjómdiskaútgáfur ýmis konar. Eiríkur Örn kennir við Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.