Guja Sandholt

Guja Sandholt býr í Hollandi og Reykjavík og starfar sem sjálfstætt starfandi söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga í Reykjavík. Á undanförnum árum hefur hún komið víða fram hérlendis og erlendis, til dæmis nefna með Barokkbandinu Brák, á Sumartónleikum í Skálholti, Operadagen Rotterdam og sem Julia Child í súkkulaðikökuóperunni Bon Appétit! eftir bandaríska tónskáldið Lee Hoiby. Nýlega tók hún einnig þátt í æsispennandi uppfærslu á The Bear eftir William Walton á Cycle Music and Art Festival í Kópavogi og Svíþjóð sem vakti nokkra athygli og varð kveikjan að Óperudögum.

Guja kemur reglulega fram sem einsöngvari á ljóðatónleikum og í flutningi á óratoríum á borð við Mattheusarpassíuna og Jólaóratoríuna eftir J.S.Bach, Requiem eftir Mozart og Duruflé, Stabat mater eftir Dvorak, Pergolesi og Arvo Pärt og Messías eftir Handel. Hún gegnir þar að auki hálfri stöðu sem 1. alt hjá Hollenska útvarpskórnum, einum fremsta atvinnukór heims. Guja var valin til þess að taka þátt í verkefninu Nieuwe Stemmen á Operadagen Rotterdam fyrir unga og upprennandi söngvara árið 2015 og árið 2013 fór hún sem styrkþegi Wagner-félagsins til Bayreuth í Þýskalandi. Á árunum 2011-2012 starfaði Guja fyrir eistneska tónskáldið Arvo Pärt og fjölskyldu hans um hríð. Hún hlaut starfslaun listamanna árið 2019 í níu mánuði.

Guja stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Guildhall School of Music and Drama í London, Mozarteum tónlistarháskólann í Salzburg og Konservatoríið í Utrecht í Hollandi þar sem kennarar hennar voru þau Jón Þorsteinsson tenór og Charlotte Margiono sópran. Guja sækir nú reglulega einkatíma hjá Stephanie Doll í Düsseldorf.

Næsta verkefni Guju er flutningur á Wesendonck-ljóðum Richard Wagners á hádegistónleikunum WAGNERMANÍA í Fríkirkjunni 1. ágúst ásamt píanistanum Heleen Vegter en þær hafa unnið saman frá árinu 2013.
 

Heimasíða hennar er www.gujasandholt.com

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon