Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran, hefur komið reglulega fram á Íslandi undanfarin ár en hún lauk meistaranámi frá Hollensku óperuakademíunni árið 2015, með Margreet Honig og Valerie Guillorit sem aðalkennara. Áður nam hún við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Dóru Reyndal og lauk þaðan burtfararprófi árið 2009.

Eftir að hafa lokið námi starfaði Hrafnhildur sem söngkona í Hollandi og kom meðal annars fram í sýningum hjá Hollensku óperunni í Amsterdam, Nationale Reisopera, og hjá DommelGraaf Theater á tónleikaferðalagi um allt Holland. Einnig hefur hún komið fram á hátíðum eins og Grachtenfestival og Uitmarkt í Amsterdam, og í tónleikasölum í Amsterdam, Nijmegen, Haarlem, Leiden, Haag og Delft, sem og nýlistasafni Amsterdam, Stedelijk museum.

Meðal óperuhlutverka sem Hrafnhildur hefur farið með eru Echo í Ariadne auf Naxos eftir R. Strauss, Thérèse í Les Mamelles de Tirésias eftir F. Poulenc, Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós eftir W. A. Mozart, Fiordiligi í Cosi fan tutte eftir Mozart og Alcina í samnefndri óperu eftir G. F. Händel. Einnig kemur hún reglulega fram á tónleikum og hefur hún meðal annars sungið Vier letzte Lieder eftir R. Strauss, Petite Messe Solennelle eftir G. Rossini, Exsultate Jubilate eftir Mozart, Gloria eftir F. Poulenc og Der Hirt auf dem Felsen eftir F. Schubert.

Nýlega kom Hrafnhildur fram á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2019, en önnur verkefni hennar starfsárið 2018/19 voru m.a. tónlistarhátíðin Músík í Mývatnssveit, tónleikar í tónleikaröð Tíbrá í Salnum og á Sígildum sunnudögum í Hörpu, tónleikar með Barokkbandinu Brák á Óperudögum í Reykjavík, óperugjörningurinn Free Play á Listasafni Reykjavíkur og hlutverk Anninu í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata.

Hrafnhildur var ein sigurvegara í keppninni Ungir einleikarar árið 2011 á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og LHÍ og árið 2013 söng hún í úrslitum keppninnar Concours d’Excellence de l’U. P. M. C. F. í París. Hún hefur hlotið dvalarstyrk Selsins á Stokkalæk, samfélagsstyrk Valitor og listamannalaun Rannís.

Hrafnhildur hefur verið virk í kórastarfi frá unga aldri og í janúar 2019 tók hún við sem kórstýra kvennakórsins Vox Feminae.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon