top of page

Kammerkórinn Röst 

Kammerkórinn Röst er kór sem starfar á Akranesi. Kórinn var stofnaður í upphafi þessa árs af Hilmari Erni Agnarssyni kórstjóra og organista  Akraneskirkju sem einnig er stjórnandi kórsins.  Kórinn er byggður á gömlum og traustum grunni. Flestir kórfélagar hafa mikla reynslu af kórsöng, eru félagar í Kór Akraneskirkju og hafa í gegnum árin sungið með ýmsum kórum og sönghópum. 

Nafn kórsins hefur skírskotun til sjávarplássins Akraness, þar sem útgerð lagði grunninn að lífi og búsetu. Þar eru haf, stendur og fjörur allt um lykjandi og setja mark sitt á bæjarbrag og menningu. 

 

Kórsins bíða mörg spennandi verkefni, strax á fyrsta starfsári. Þar má fyrst telja söng á Reykholtshátíð. Þar verður meginstefið  frumflutningur á nýjum verkum eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli, sem voru útsett og verða flutt í nánu samstarfi við listamanninn. Á hátíðinni flytur kórinn einnig verk eftir önnur borgfirsk tónskáld.

Ferð til Grænlands er á döfinni á haustdögum og í framhaldinu flutningur á Jóhannesarpassíu eftir J.S. Bach.

 


Hilmar Örn Agnarsson, stjórnandi

Hilmar Örn, organisti og kórstjóri, hóf tónlistarnám sitt við Tónskóla Þjóðkirkjunnar ungur að árum. Hann lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983, þar sem aðalkennari hans var Jónas Ingimundarson. Að útskrift lokinni starfaði hann sem organisti og kórstjóri í Þorlákshöfn og Strandarkirkju árin 1983-1985. Þaðan hélt hann til frekara náms í orgelleik og kórstjórn í Þýskalandi og stundaði nám við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Hamborg frá 1985-1991. Aðalkennarar hans þar voru Gerhard Digkel organisti í St. Michael kirkjunni í Hamborg, Rose Kirn, sérfræðingur í barokktúlkun og Klaus Vetter kórstjóri.

 

Árið 1991 var Hilmar ráðinn organisti við Skálholtsdómkirkju og stjórnaði þar öflugu tónlistarlífi til loka árs 2008. Hann tók við stöðu organista í Kristskirkju, Landakoti í Reykjavík, í byrjun árs 2009. Hann hefur stjórnað fjölmörgum kórum, m.a. Kór Dómkirkju Krists konungs, Kammerkór Suðurlands, Söngfjelaginu og nú síðast stofnaði hann Kammerkórinn Röst á Akranesi.

Hilmar hefur ferðast með kóra sína um margar heimsálfur. Kammerkór Biskupstungna var m.a. fulltrúi Íslands á Expo í Japan 2005. Hann hefur gefið út fjölda geisladiska með kórum sínum, m.a. Heilagur draumur með tónlist eftir breska tónskáldið Sir John Tavener í flutningi Kammerkórs Suðurlands. Hljómplatan var valin plata mánðarins hjá hinu virta tímariti Gramophone og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem hljómplata ársins í flokknum Sígild og samtímatónlist.

Hilmar Örn hefur langa reynslu sem organisti. Hann hefur starfið við Grafarvogskirkju, Kristskirkju í Reykjavík, lengst var hann organisti við Skálholtsdómkirkju og hefur stjórnað fjölmörgum kórum. Hann er organisti og söngstjóri við Akraneskirkju.

Páll Guðmundsson frá Húsafelli 

Páll Guðmundsson (1959) er fæddur á Húsafelli í Borgarfirði og kennir sig við staðinn. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977-1981 og Listaháskólann í Köln í Vestur-Þýskalandi 1985-1986 undir handleiðslu prófessors Burgeff. Páll er fjölhæfur listamaður – málar með olíu- og vatnslitum, vinnur bergþrykk og svellþrykk og býr til höggmyndir og skúlptúra úr grjóti. Auk þess er hann músíkalskur og leikur m.a. á steinhörpu sem hann smíðaði sjálfur og semur lög og tónverk. Hann hefur haldið fjölda sýninga, einkasýningar og samsýningar, og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín.

Stjórnandi
0H5A8663.jpg
bottom of page