Laugardagur 28. júlí kl. 20

MOZART OG BARTÓK – KAMMERTÓNLEIKAR

Kammersveit Reykholtshátíðar

 

Tvö ólík tónskáld mætast á þriðju tónleikum Reykholtshátíðar. Frá Mozart heyrum við tvö yndisleg kammerverk, annars vegar dúó fyrir fiðlu og lágfiðlu í G-dúr og hins vegar flautukvartettinn í C-dúr sem lýkur á einkar skemmtilegum tilbrigðakafla.

 

Eftir hlé er komið að æskuverki eftir ungverska tónskáldið Béla Bartók, píanókvintettnum í C-dúr sem hann samdi aðeins 23 ára að aldri. Bartók dró verkið til baka fljótlega eftir að það var frumflutt, enda sækir verkið tónmál sitt meira til síðrómantíkur 19. aldar en þess stíls sem Bartók átti síðar eftir að tileinka sér. Verkið hefur þó síðari árum heyrst oftar en verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi á Reykholtshátíð í sumar.

E F N I S S K R Á

W.A. Mozart (1756-1791)                 Dúó fyrir fiðlu og lágfiðlu í G-dúr K. 423

Allegro

Adagio

Rondeau. Allegro

 

Ari Þór Vilhjálmsson, fiðla

Þórunn Ósk Marinósdóttir, lágfiðla


 

W.A. Mozart                                        Flautukvartett nr. 3 í C-dúr, K.285b

 

Allegro

Andantino, tema og tilbrigði

 

Berglind Stefánsdóttir, flauta

Pétur Björnsson, fiðla

Þórunn Ósk Marinósdóttir, lágfiðla

Sigurgeir Agnarsson, selló


 

H L É


 

Béla Bartók (1881-1945)                Píanókvintett í C-dúr

 

Andante

Vivace (scherzando)

Adagio

Poco a poco più vivace

 

Ari Þór Vilhjálmsson, fiðla

Pétur Björnsson, fiðla

Þórunn Ósk Marinósdóttir, lágfiðla

Sigurgeir Agnarsson, selló

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó

Ef marka má samtímaheimidir var W.A. Mozart (1756-1791) ekki mikill aðdáandi þverflautunnar, eins og hann lýsir m.a. í bréfi til föður síns frá árinu 1778. Í seinni tíð hefur þó verið dregið í efa hversu mikil alvara lá að baki skrifum Mozart, m.a. í ljósi þess að hann var á þessum tíma kominn langt á eftir áætlun með að semja sett af flautukvartettum sem C-dúr kvartettinn tilheyrir. Hvað sem öllu líður að þá skrifaði Mozart m.a. 2 einleikskonserta og 4 kvartetta fyrir flautuna. Þessi verk eru hvert öðru betur skrifuð og sýna snilli Mozart í að nýta eiginleika hljóðfærisins með ólíkum hjóðfærasamsetningum. 

Flautukvartettinn í C-dúr K. 285b fyrir flautu, fiðlu, lágfiðlu og selló er saminn veturinn 1777-78 og er úr fyrrnefndu setti þriggja kvartetta. Hann var saminn á tiltölulega stuttum tíma og er í tveimur köflum – Allegro og svo Andantino með þema og 6 tilbrigðum.

 

Mozart snéri í heimsókn til Salzburg árið 1783 eftir að hafa sagt upp störfum þar 1781 og flutt til Vínar. Við komuna til Salzurg frétti Mozart að vin hans, tónskáldið Michael Haydn (yngri bróðir Joseph Haydn), vantaði tvo dúetta upp á til að geta klárað pöntun upp á samtals sex dúetta fyrir fiðlu og lágfiðlu fyrir hans gamla vinnuveitenda í Salzburg, erkibiskupinn Hieronymus Colloredo. Haydn hafði ekki getað klárað pöntunina vegna veikinda og ákvað Mozart að hlaupa undir bagga og lét Haydn fá 2 dúetta sem hann mætti nota í sínu nafni. Fór svo að lokum að af þessum 6 dúettum urðu þeir 2 sem Mozart skrifaði langvinsælastir. Ritháttur Mozart var um margt frábrugðinn því sem venjan var á þessum tíma, einkum sú staðreynd að lágfiðlan var meðhöndluð sem jafningi fiðlunnar, en þurfti ekki eingöngu að láta sér lynda  undirleikshlutverk eins og hefð var fyrir.

Ungverska tónskáldið Béla Bartók (1881-1945) samdi Píanókvintettinn í C-dúr á árunum 1903-1904 og var hann frumfluttur í Vín 21. nóvember 1904. Viðtökur við  kvintettnum voru ekki mjög góðar og þótti hann nokkuð tyrfinn, sérstaklega fyrir flytjendur að setja saman. Á næstu árum var kvinettinn fluttur nokkrum sinnum og endurskoðaði Bartók hann m.a. árið 1920. Fór þó svo að lokum að árið 1921 dró Bartók verkið til baka. Ástæðar þessar hafa m.a. verið taldar að kvinettinn var þá byrjaður að njóta nokkrar velgengni, í rauninni meiri velgengni en nýrri verk Bartók og þótti tónskáldinu það miður, enda tónmál píanókvinettsins meira í anda síðrómantíkur 19. aldar en þess tónmáls sem Bartók var þá byrjaður að þróa með sér. Lengi vel var talið að Bartók hefði eyðilagt handritið að píanókvintettnum en það fannst svo árið 1963. Kvintettinn var í framhaldinu fluttur bæði í New York og Washington. Á seinni árum hefur verkið notið æ meiri athygli og verið flutt víðar, þó svo að það sé ennþá tiltölulega óþekkt miðað við flest önnur verk Bartók. Eftir því sem aðstandendur Reykholtshátíðar komast næst er hér um frumflutning á verkinu að ræða á Íslandi.

​Góða skemmtun!


Sigurgeir Agnarsson

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon