Sigurgeir Agnarsson, sellóleikari og listrænn stjórnandi

Sigurgeir Agnarsson sellóleikari útskrifaðist árið 1995 með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Frekara framhaldsnám stundaði hann í New England Conservatory of Music í Bandaríkjunum hjá Laurence Lesser og David Wells og Robert Schumann tónlistarháskólanum í Þýskalandi hjá Prof. Johannes Goritzki.

Sigurgeir hefur leikið með ýmsum kammerhópum og hljómsveitum, tekið þátt í tónlistarhátíðum hér heima og erlendis, haldið einleikstónleika og komið fram sem einleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Blásarasveit Reykjavíkur og Bochumer Symphoniker. Hann var valinn fulltrúi Íslands til að koma fram á tónleikaröðinni Podium of Young European Musicians í Goethe stofnunni í Brusse. Sigurgeir hefur komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum og leikið inn á fjölmargar upptökur, m.a. fyrir RÚV og Naxos. 

Frá árinu 2003 hefur Sigurgeir leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið leiðari sellódeildarinnar frá árinu 2017. Sigurgeir er jafnframt deildarstjóri strengjadeildar Menntaskólans í tónlist (áður Tónlistarskólinn í Reykjavík) og stundakennari við Listaháskóla Íslands.

Sigurgeir hefur verið listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar frá árinu 2013.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon