Sigurgeir Agnarsson
Sigurgeir Agnarsson var árið 2017 skipaður í stöðu leiðara sellódeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en hafði á undan gegnt stöðu aðstoðarleiðara frá árinu 2003. Auk starfa sinna fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur Sigurgeir víða komið við í íslensku tónlistarlífi sem flytjandi, kennari og skipuleggjandi ýmissa tónlistarviðburða.
Sigurgeir hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands í sellókonsertum Schumanns, Haydn (C og D dúr), þríkonsertinum eftir Beethoven, tvíkonserti Brahms og Sieben Wörte eftir Sofiu Gubaidulinu. Auk þess hefur hann leikið einleik með Kammersveit Reykjavíkur, Blásarasveit Reykjavíkur og Bochumer Symphoniker. Sigurgeir hefur komið fram á ýmsum tónlistarhátíðum, bæði heima og erlendis, m.a. Listahátíð í Reykjavík, Reykjavik Midsummer Music og Oulunsalo hátíðinni í Finnlandi. Sigurgeir var tilnefndur sem flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 ásamt Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur fyrir heildarflutning á verkum Ludwig van Beethoven fyrir selló og píanó á þrennum tónleikum á Listahátíð í Reykjavík sama ár.
Sigurgeir hefur kennt við Menntaskóla í tónlist (áður Tónlistarskólinn í Reykjavík) frá árinu 2003 og er jafnframt kennari við Listaháskóla Íslands. Sigurgeir er einn af stofnendum Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu (HIMA) og situr jafnframt í stjórn akademíunnar. Þá var hann listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar á árunum 2013 til 2020.
Sigurgeir hóf nám á selló hjá Gunnari Kvaran við Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1984, þá átta ára gamall. Hann lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 og hélt til frekara náms við New England Conservatory of Music í Boston og síðar við Robert Schumann tónlistarháskólann í Düsseldorf.
Sigurgeir hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sigurgeir sat um margra ára skeið í stjórn Hjólreiðasambands Íslands og var árið 2018 gerður að heiðursfélaga sambandsins fyrir störf sín í þágu hjólreiðaíþróttarinnar.