Vox feminae

Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður af Margréti J. Pálmadóttur árið 1993. Frá upphafi hefur trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum einkennt lagaval kórsins. Kórinn hefur einnig lagt rækt við samtímatónlist og meðal verka sem kórinn hefur frumflutt má nefna messu Báru Grímsdóttur, sem frumflutt var á Myrkum músíkdögum árið 2013 og Stabat Mater eftir John A. Speight sem frumflutt var árið 2008. Kórinn tók þátt í alþjóðlegri kórakeppni í Vatíkaninu í Róm árið 2000 og vann þar til silfurverðlauna. Auk sjálfstæðs tónleikahalds hefur Vox feminae komið fram með söngvurum, kórum og hjómsveitum og má þar nefna söng með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Plánetunum eftir Gustav Holst og í Þriðju sinfóníu Mahlers.

 

Vox feminae hefur gefið út þrjá geisladiska, Mamma geymir gullin þín, Himnadrottning og Ave Maria.

 

Á haustdögum 2017 tók kórinn þátt í tónleikaröð Hörpu, Sígildum sunnudögum þar sem flutt voru m.a. verk eftir Bach, Haydn, Fauré, Jórunni Viðar, Hildigunni Rúnarsdóttur, Tryggva M. Baldvinsson og Ola Gjelo. Í febrúar 2018 hélt kórinn tónleika í Veröld, húsi Vigdísar. Tónleikarnir báru yfirskriftina Veginn man hún og flutt voru ýmis verk sem hafa lengi verið hluti af efnisskrá kórsins. Í júlí 2018 tók Vox Feminae þátt í Sönghátíð Möggu Pálma á Húsavík þar sem kórinn hélt tónleika undir yfirskriftinni HáslátturHefðbundnir vor-og jólatónleikar eru alltaf haldnir og undanfarið hefur áherslan ýmist verið á ung íslensk tónskáld eða hefðbundna klassíska tónlist.

 

Stjórnandi Vox feminae er Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon