Reykholtshátíð 2018

Heildardagskrá

 

Föstudagur 27. júlí kl. 20

Opnunartónleikar Reykholtshátíðar

 

Kristinn Sigmundsson, bassi

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó

Kammersveit Reykholtshátíðar

 

Kristinn Sigmundsson bassasöngvara og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara þarf vart að kynna fyrir tónleikagestum. Kristinn á  stórglæsilegan feril að baki og hefur sungið víða um heim en kemur nú fram í fyrsta sinn á Reykholtshátíð.

 

Efnisskrá tónleikanna verður birt þegar nær dregur.

 

 

 Laugardagur 28. júlí kl. 16

Sumarkveðja – íslenskar kórperlur á fullveldisafmæli

 

Hljómeyki

Stjórnandi: Marta Guðrún Halldórsdóttir

 

Söngflokkurinn Hljómeyki flytur íslenskar kórperlur undir stjórn Mörtu Guðrúnar Halldórsdóttur. Tónleikarnir bera yfirskriftina Sumarkveðja en á efnisskrá eru verk eftir mörg okkar þekktustu tónskáld m.a. Atla Heimi Sveinsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Snorra Sigfús Birgisson, Hildigunni Rúnarsdóttur og Emil Thoroddsen.

 

 

 

Laugardagur 28. júlí kl. 20

Mozart og Bartók – Kammertónleikar

 

Kammersveit Reykholtshátíðar

 

Tvö ólík tónskáld mætast á þriðju tónleikum Reykholtshátíðar. Frá Mozart heyrum við tvö yndisleg kammerverk, annar vegar dúó fyrir fiðlu og lágfiðlu í G-dúr og hins vegar flautukvartettinn í C-dúr með lýkur á einkar skemmtilegum tilbrigðakafla.

 

Eftir hlé er komið að æskuverki eftir ungverska tónskáldið Béla Bartók, píanókvintettnum í C-dúr sem hann samdi aðeins 23 ára að aldri. Bartók dró verkið til baka fljótlega eftir að það var frumflutt, enda sækir verkið tónmál sitt meira til síðrómantíkur 19. aldar en þess stíls sem Bartók átti síðar eftir að tileinka sér. Verkið hefur þó síðari árum heyrst oftar en verður flutt í fyrsta sinn á Íslandi á Reykholtshátíð í sumar.

 

 

 

Sunnudagur 29. júlí kl. 16

Hátíðartónleikar: Fullveldi í 100 ár

– íslensk kammertónlist frá 1918 til 2018

 

Kammersveit Reykholtshátíðar ásamt Kristni Sigmundssyni

 

Kynnir Guðni Tómasson

 

Á lokatónleikum Reykholtshátíðar verður leikið úrval íslenskra kammerverka frá fullveldisárinu 1918 og fram á okkar dag. Á tónleikunum endurspeglast sú ótrúlega þróun sem hefur átt sér stað í tónlistarlífi og tónsköpun Íslendinga síðustu 100 árin. Við upphaf fullveldis voru Íslendingar nær eingöngu að semja tónlist í anda síðrómantíkur fyrir samlanda sína. Eitt hundrað árum síðar hafa íslensk tónskáld brotið niður alla múra og semja tónlist af ýmsum toga sem er flutt bæði hér heima og erlendis. Á þessum tónleikum munu hljóma verk eftir m.a. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Jón Leifs, Jórunni Viðar, Jón Nordal, Jón Ásgeirsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Hauk Tómasson, Þórð Magnússon og Önnu Þorvaldsdóttur.

 

Guðni Tómasson útvarpsmaður verður kynnir tónleikanna og mun leiða áheyrendur í gegnum söguna þessi hundrað ár sem liðin eru frá því að Ísland varð fullvalda ríki.

 

Tónleikarnir eru liður í afmælisdagskrá vegna 100 ára fullveldis Íslands.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon