Kristinn Sigmundsson

Kristinn Sigmundsson útskrifaðist sem líffræðingur frá Háskóla Íslands. Að því loknu kenndi hann líffræði og efnafræði um nokkurra ára skeið við Menntaskólann við sund. Hann hóf síðan nám við Söngskólann Í Reykjavík hjá Guðmundi Jónssyni óperusöngvara og útskrifaðist árið 1982. Þaðan lá leið hans til Vínarborgar. Kennari hans þar var Helene Karusso. Síðan fór hann til Washington DC þar sem hann naut leiðsagnar John Bullock.

 

Frá árinu 1989 hefur Kristinn fyrst og fremst sungið á erlendri grundu. Fyrst var hann fastráðinn við óperuna í Wiesbaden í Þýskalandi en frá árinu 1991 hefur hann starfað „free-lance“ og komið fram í flestum virtustu tónlistar- og óperuhúsum heims. Má þar nefna Vínaróperuna, Metropolitan-óperuna í New York og La Scala í Mílanó. Kristinn hefur sungið yfir 90 óperuhlutverk, m.a. í flestum óperum Wagners, t.d. Hollendingnum fljúgandi, Tannhäuser, Parsifal, Lohengrin, Tristan og Ísold, Rínargullinu, Valkyrjunni, Meistarasöngvurunum frá Nürnberg og fleirum. Kristinn hefur sungið inn á nokkrar hljóðritanir á íslenskum og erlendum sönglögum. Hann hefur einnig tekið þátt í erlendum hljóðritunum, m.a. á vegum Decca, Philips og Harmonia Mundi með ýmsum þekktum hljómsveitum og stjórnendum. Þar má nefna Töfraflautuna og Don Giovanni með hljómsveit Drottningholmóperunnar, Mattheusarpassíu og Jóhannesarpassíu Bachs með Orchestra of the Eighteenth

Century og Rakarann í Sevilla með útvarpshljómsveitinni í München.

 

Kristinn hefur hlotið margar erlendar viðurkenningar á ferli sínum og má þar t.d. nefna Philadelpiha Opera Prize, Opernwelt-verðlaunin í Belvedere-keppninni í Vínarborg árið 1983 og Stämgaffeln – Det klassiska svenska fonogrampriset sem hann hlaut árið 1991. Árið 1994 var hann sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og árið 2011 hlaut hann Útflutningsverðlaun forseta Íslands. Kristinn hefur þrisvar sinnum unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna – árið 1995 fyrir klassíska hljómplötu ársins, árið 2010 sem rödd ársins og árið 2011 sem söngvari ársins. Hann hlaut heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2015. Sama ár hlaut hann einnig Grímuverðlaunin sem söngvari ársins. Hann tók þátt í sýningum og upptöku á The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano í Los Angeles óperunni. Sú upptaka hlaut Grammy-verðlaun árið 2017.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon