top of page

Laugardagur 24. júlí kl. 13
Fyrirlestur á vegum Snorrastofu

Þorsteinn frá Hamri

Ástráður Eysteinsson
prófessor í bókmenntafræði

thorsteinn_fra_hamri.jpg

Þorsteinn frá Hamri er meðal fremstu nútímaskálda íslenskrar tungu. Þegar hann steig fram á bókmenntasviðið fyrir ríflega sex áratugum, þótti sumum ungskáldið úr uppsveitum Borgarfjarðar að vísu nokkuð fornt í lund, komið til borgarinnar með sjónarsvið og orðlistararf fyrri alda. Svar Þorsteins birtist í heiti annarrar ljóðabókar hans: Tannfé handa nýjum heimi (1960), en það má teljast vísun til bernskubrölts nútímans, sem skáldið á brýnt erindi við. Hann undirstrikaði það með heiti síðustu bókarinnar sem hann gekk frá. Hún heitir Núna (2016).

Þorsteinn frá Hamri sækir umboð sitt og erindi í senn til sögunnar og samtímans. Æviskeið skáldsins er samofið hvoru tveggja á hugkvæman og djarfan hátt í ljóðum þar sem mælandi finnur sér stað er lesanda býðst að deila með honum.

Ástráður Eysteinsson er uppvaxinn í Borgarnesi, lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð (1976) og BA-prófi í þýsku og ensku við Háskóla Íslands (1979). Hann stundaði síðan framhaldsnám í bókmenntafræði og þýðingafræði við háskóla í Englandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum, þar sem hann lauk doktorsprófi við University of Iowa 1987. Kennsluferill hans hófst í Breiðholtsskóla 1977 og meðfram háskólanámi kenndi hann við grunnskóla, menntaskóla og háskóla. Hann hóf að kenna við Háskóla Íslands 1987 og hefur verið þar prófessor í almennri bókmenntafræði frá 1994. Ástráður hefur sinnt fræðaverkum sínum – fræðilegri ritstjórn, samningu nokkurra bóka og fjölda greina – jöfnum höndum á íslensku og ensku. Hann hefur fengist við stefnur og strauma í nútímabókmenntum Vesturlanda, með áherslu á bókmenntir innan málsvæða ensku, þýsku og íslensku. Rannsóknir Ástráðs hafa einnig beinst að þýðingum og hann var brautryðjandi í þýðingafræði í íslensku samhengi, auk þess sem hann hefur verið virkur bókmenntaþýðandi. Hann hefur einnig sinnt margskonar stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands og var m.a. forseti Hugvísindasviðs skólans frá 2008 til 2015.

ÁEy mynd.jpg
bottom of page