top of page

Þórunn Ósk Marinósdóttir

Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og kennir víóluleik og kammermúsík við Menntaskóla í tónlist  og Listaháskóla Íslands. Hún hóf fiðlunám í Tónlistarskólanum á Akureyri sjö ára gömul þar sem hennar aðalkennari var Lilja Hjaltadóttir og lauk masters prófi í víóluleik frá Konunglega tónlistarháskólanum í Brussel undir handleiðslu Ervins Schiffer.

 

Þórunn hefur starfað með fjölmörgum tónlistarhópum og er stofnmeðlimur í Strokkvartettinum Sigga sem hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2018. Fjöldi tónverka hafa nú þegar verið hljóðrituð og gefin út með leik kvartettsins. Hún kemur einnig reglulega fram sem einleikari og plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út upptökur með leik Þórunnar af verkum Hafliða Hallgrímssonar Ombra, konsert fyrir víólu og strengjasveit og Dagbókarbrot fyrir víólu og píanó. Einnig hefur hún leikið inn á fjölda geisladiska með kammerverkum, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur.

 

Þórunn Ósk hefur verið listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar frá árinu 2021 en hún hefur margsinnis komið fram á hátíðinni.

ÞórunnÓsk.jpg
bottom of page