Þórunn Ósk Marínósdóttir

Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði fiðlunám hjá Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk Mastersprófi í víóluleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Brussel undir handleiðslu Ervin Schiffer. Í Belgíu var hún leiðari víóludeildar kammerhljómsveitarinnar Prima la Musica undir stjórn Dirks Vermeulen og um tíma meðlimur í einleikarasveitinni I Fiamminghi  undir stjórn Rudolfs Werthens. Hún hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Prima la Musica, Kammersveit Reykjavíkur og Sumida Triphony Hall orchestra í Tokýó.

Þórunn er reglulegur gestur Kammermúsíkklúbbsins , spilar reglulega með tónlistarhópunum Kammersveit Reykjavíkur og Caput og árið 2012 stofnaði hún Strokkvartettinn Sigga ásamt félögum sínum. Kvartettinn hefur gefið út eina plötu með verkum eftir íslensk tónskáld sem hlaut tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna en hópurinn er handhafi verðlaunanna sem flytjandi ársins 2018. Strokkvartettinn Siggi spilaði einnig inn á plötu Víkings Heiðars Ólafssonar með verkum Phillips Glass sem gefin var út hjá Deutsche Grammophone. Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út hljóðritanir þar sem Þórunn fer með einleikshlutverkið í víólukonsertinum Ombra ásamt Kammersveit Reykjavíkur og í Dagbókarbrot fyrir víólu og píanó ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur en bæði verk eru eftir Hafliða Hallgrímsson. Hún hefur einnig spilað inn á fjölda hljóðritana á kammermúsík, oft undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur og í seinni tíð hjá útgáfufyrirtækinu Sono Luminus.

Þórunn kennir víóluleik og kammermúsík við Menntaskóla i tónlist og Listaháskóla Íslands auk þess sem hún hefur reglulega kennt á sumarnámskeiðum við Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Hörpu og Tónlistarhátíð unga fólksins.

FYLGSTU MEÐ OKKUR 
  • Facebook B&W
  • White Instagram Icon