top of page

Hanna Dóra Sturludóttir

Hanna Dóra Sturludóttir hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim. Hún hefur komið reglulega fram á ljóðatónleikum, tekið þátt í flutningi kirkjulegra verka, sungið óperuhlutverk víða í Evrópu, tekið þátt í fjölmörgum sýningum Íslensku óperunnar og komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, ásamt fjölda erlendra hljómsveita víða um heim.

 

Hanna Dóra var valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2014 fyrir hlutverk Eboli prinsessu í óperunni Don Carlo í uppsetningu Íslensku óperunnar og fékk auk þess tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013,  2018, 2019 og 2022. Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins árið 2021. Hanna Dóra vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína í óperunni KOK eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur sem frumflutt var í Borgarleikhúsinu vorið 2021 og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem tónlistarviðburður ársins 2021.

 

Hanna Dóra hefur lagt sérstaka áherslu á flutning nýrrar tónlistar og starfaði um nokkurra ára skeið með óperuhópnum Novoflot í Berlin sem sérhæfir sig í óhefðbundum óperuuppsetningum. Á Íslandi hefur hún m.a. unnið með Caput-hópnum, tekið þátt í Myrkum músíkdögum og unnið náið með Snorra Sigfúsi Birgissyni tónskáldi og hafa þau á undanförnum árðum flutt og hljóðritað mikið af nýrri íslenskri tónlist.

 

Hanna Dóra er prófessor og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

HannaDoraSturludottir.jpg
bottom of page