top of page

Jóhann Kristinsson

Jóhann Kristinsson hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Bergþóri Pálssyni árið 2009. Árið 2015 hóf hann nám við Hanns Eisler tónlistarháskólann í Berlín og útskrifaðist þaðan árið 2017 með meistaragráðu og hæstu einkunn. Þar sótti hann einkatíma hjá Scot Weir, Thomas Quasthoff og Júliu Várady. Þar fyrir utan hefur hann m.a. notið leiðsagnar Kristins Sigmundssonar, Thomas Hampson, Giacomo Aragall og Helmut Deutsch.

 

Jóhann hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2017 í flokknum Bjartasta vonin og var einnig tilnefndur til tveggja verðlauna í viðbót, sem söngvari ársins og fyrir tónlistarviðburð ársins, fyrir ljóðatónleika í Salnum í Kópavogi. Það sama ár hlaut hann þriðja sætið og áheyrendaverðlan alþjóðlegu söngkeppninnar Das Lied. Í fyrra bar hann sigur úr býtum í alþjóðlegu söngkeppninni Stella Maris og hlaut þar einnig sérstök verðlaun Musikverein Wien. Þar keppti hann fyrir hönd Ríkisóperunnar í Hamborg gegn ungum söngvurum frá 5 öðrum óperuhúsum í fremsta gæðaflokki.

 

Hann kemur reglulega fram sem gestur við Ríkisóperuna í Hamborg en hann var meðlimur óperustúdíósins þar frá 2017-2019. Jóhann hefur unnið með hljómsveitarstjórum úr fremstu röð en þar má nefna Herbert Blomstedt, Kent Nagano, Pier Giorgio Morandi, Stefano Ranzani og Giampaolo Bisanti. Hann hefur einnig komið fram á virtum tónlistarhátíðum eins og Dresdner Musikfestspiele, Heidelberger Frühling og Oxford Lieder Festival.

20200604-DSC04618.jpg
bottom of page