top of page

Oddur Arnþór Jónsson

Oddur Arnþór Jónsson, barítón, söng aðalhlutverkið (Michael) í Brothers, margverðlaunaðri óperu Daníels Bjarnasonar á Listahátíð 2018.  Hann var útnefndur Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum 2014 fyrir hlutverk sitt í Don Carlo, sem var frumraun hans í Íslensku óperunni.

Oddur lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík og stundaði framhaldsnám í óperu- og ljóðasöng við Mozarteum háskólann í Salzburg, Austurríki. Hann hlaut Lilli Lehmann viðurkenninguna fyrir framúrskarandi meistarapróf.

Oddur hefur sungið fjölda óperuhlutverka við Íslensku óperuna og má þar helst nefna Don Giovanni, Figaro í Rakaranum frá Sevilla og Rodrigo í Don Carlo. Önnur óperuhlutverk sem hann hefur sungið á sviði eru Wolfram í Tannhäuser og Kurwenal í Tristan und Isolde (Óperuhúsið í Chemnitz, Þýskalandi), Schaunard í La bohème (Reisopera, Hollandi) og Prins Yeletsky í Pique Dame (Opernbühne Bad Aibling, Þýskalandi).

Sem ljóðasöngvari hefur hann flutt Schwanengesang á Schubert hátíðinni í Vilabertran á Spáni, Vetrarferðina og Das Lied von der Erde eftir Gustav Mahler í Garnier-óperunni í París. Á Íslandi hefur komið fram sem einsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, í Hallgrímskirkju með Mótettukórnum og Herði Áskelssyni í Mattheusarpassíunni eftir Bach, Solomon eftir Händel, Te Deum eftir Charpentier og Messu í F-dúr eftir Bach. Hann söng í Messíasi eftir Händel í Hörpu með Dómkórnum í Reykjavík undir stjórn Kára Þormar og í Jóhannesarpassíunni eftir Bach í Langholtskirkju með Jóni Stefánssyni.

Oddur hefur hlotið fjölda viðurkenninga í alþjóðlegum ljóðakeppnum. Hann fékk Schubert verðlaunin og verðlaun sem besti ljóða- og óratóríu flytjandinn í Francesc Viñas keppninnni í Barcelona. Hann sigraði Brahms-keppnina í Pörtschach í Austurríki og varð þriðji í Schubert keppninni í Dortmund, Þýskalandi. 

Oddur Jónsson (logo)-1.jpg
bottom of page