top of page

Hljómeyki

Hljómeyki var stofnað árið 1974. Sönghópurinn hefur frá upphafi verið í fremstu röð íslenskra kóra og tekist á við afar fjölbreytt verkefni, allt frá kórmúsík endurreisnarinnar til rokktónlistar. Árið 1986 tók Hljómeyki upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti sem stóð í þrjá áratugi og frumflutti hópurinn á þeim tíma tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins. Kórinn tekur iðulega þátt í öðrum hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist og hann hefur undanfarin ár átt farsælt samstarf við Listaháskóla Íslands um flutning á verkum útskriftarnemenda. Þá hefur Hljómeyki gefið út sex geisladiska með verkum eftir íslensk tónskáld, þau Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Jón Nordal og Sigurð Sævarsson.

Hljómeyki hefur tekið þátt í flutningi á óperunum Dídó og Eneas eftir Purcell, Orfeus og Evridís eftir Gluck, Orfeo eftir Monteverdi, La Clemenza di Tito eftir Mozart, Carmen eftir Bizet og Porgy og Bess eftir Gershwin. Síðastnefndu verkin söng kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hljómeyki hefur komið reglulega fram með hljómsveitinni á undanförnum árum, síðast á tónleikunum Klassíkin okkar, haustið 2019. Þá hefur kórinn komið fram með hljómsveitunum Todmobile, Sólstöfum, Dimmu, Skálmöld og Dúndurfréttum.

 

Hljómeyki hefur verið frumkvöðull í flutningi stórra rússneskra verka hérlendis; hópurinn hefur flutt Náttsöngva Rakhmanínovs, Kórkonsert Schnittkes og síðast Púshkínsveig Georgíjs Svírídov sem hljómaði á tónleikum í Norðurljósum, Hörpu, vorið 2018.


Þorvaldur Örn Davíðsson

Stjórnandi Hljómeykis er Þorvaldur Örn Davíðsson. Þorvaldur útskrifaðist frá Tónlistarskólanum á Akureyri árið 2012 með framhaldspróf í píanóleik. Síðan hélt hann til höfuðborgarinnar og lauk BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Tryggva M. Baldvinssonar árið 2015. Þá hóf Þorvaldur Örn nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem hann er nú á lokastigum kantorsnáms. Árið 2019 lauk hann meistaranámi í tónsmíðum; kennarar hans þar voru Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Hugi Guðmundsson. Þorvaldur hefur lagt áherslu á kórtónsmíðar og samið verk fyrir marga kóra. Að auki starfar hann sem kórstjóri við Langholtskirkju, þar sem hann hefur stýrt Gradualekórnum og Graduale Nobili frá árinu 2017. Þorvaldur hefur stjórnað Hljómeyki frá haustinu 2018.

Hljómeyki á Reykholtshátíð: 

 

Aðalheiður Ólafsdóttir

Alda Úlfarsdóttir

Björn Bjarnsteinsson

Björn Hjaltason

Brynhildur Auðbjargardóttir

Egill Gunnarsson

Finnur Jónsson

Fífa Jónsdóttir

Freyja Jónsdóttir

Gerður Guðmundsdóttir

Gunnar Guðnason

Hildigunnur Rúnarsdóttir

Ingólfur Jóhannesson

Ólafur E. Rúnarsson

Pétur Húni Björnsson

Sigmundur Sigurðsson

Skúli Hakim Mechiat

Svanhildur Óskarsdóttir

Úlfur Sveinbjarnarson

Valgerður G. Halldórsdóttir

Hljomeyki_in Harpa_for_belarus_landsc.jp
bottom of page