top of page

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1994 og hóf fiðlunám átta ára gömul. Hennar aðalkennarar á Íslandi voru Ari Þór Vilhjálmsson í Tónlistarskólanum í Reykjavík og Guðný Guðmundsdóttir í Listaháskóla Íslands. Hún lauk bakkalárprófi frá Tónlistarháskólanum í Leipzig árið 2021, þar sem hún lærði undir handleiðslu Erichs Höbarth, en stundar nú mastersnám við sama skóla hjá Tobias Feldmann.

 

Sólveig Vaka hefur spilað með ýmsum tónlistarhópum á Íslandi, þar á meðal CAPUT og Barokkbandinu Brák, og hún er einn stofnmeðlima kammersveitarinnar Elju. Hún er einnig aukamaður í Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í Þýskalandi hefur hún meðal annars spilað með Philharmonie Leipzig og Leipziger Bach Vereinigung, og á þessu ári starfar hún í Neuköllner Oper í Berlín. Sólveig Vaka hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins, og í fyrra hlaut hún styrk úr tónlistarsjóði Rótarýs á Íslandi.

 

Sem flytjandi kammertónlistar hefur Sólveig Vaka komið fram bæði á Íslandi og í Þýskalandi, nú síðast undir merkjum tónlistarhátíðarinnar Con Spirito í Leipzig með píanóleikaranum Sung-Ah Park, og á Sígildum sunnudögum í Hörpu með nýstofnuðum kammerhóp sínum, sem ásamt henni er skipaður Ernu Völu Arnardóttur, Hirti Páli Eggertssyni og Önnu Elísabetu Sigurðardóttur. Einnig hefur hún verið meðlimur í strengjakvartett Ólafs Arnalds frá árinu 2015, bæði í upptökum sem og á tónleikum víðsvegar um heiminn.

 

Sólveig Vaka spilar á fiðlu sem Hans Jóhannsson smíðaði fyrir hana árið 2010 í Reykjavík.

Sólveig Vaka.jpg
bottom of page