top of page

Þóra Kristín Gunnarsdóttir

Þóra Kristín Gunnarsdóttir hefur komið fram á tónlistarhátíðum og tónleikum víðsvegar um Sviss og Ísland. Á Íslandi hefur hún komið fram m.a. á Sígildum sunnudögum og Velkomin heim í Hörpu, Klassík í Vatnsmýrinni og á tónlistarhátíðinni Seiglu. Hún starfar aðallega við meðleik og kammertónlist en á árinu 2021 kom hún einnig fram sem einleikari með ZHdK Strings í Sviss og í Hörpu í Reykjavík, auk þess að taka þátt í Beethoven-tónleikaröð í Salnum í Kópavogi. Í Sviss hefur hún komið fram m.a. á tónlistarhátíðinni Chesa Planta Musiktage og á tónleikum á vegum Liedrezital Zürich. Síðastliðin fjögur sumur hefur hún verið meðleikari á masterklassnámskeiðum fyrir söngvara í Frakklandi. Þóra hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik með kammertónlist sem aukagrein frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Árið 2020 lauk hún annarri meistaragráðu í kammertónlist og meðleik frá listaháskólanum í Zürich, þar sem aðalkennari hennar var píanóleikarinn Friedemann Rieger. Hún sótti þar einnig reglulega tíma hjá m.a. Christoph Berner og Eckart Heiligers. Hún hefur sótt masterklassnámskeið hjá m.a. Thomas Hampson, Joseph Breinl og Ewa Kupiec. Þóra starfar sem meðleikari við Menntaskóla í tónlist og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar.

Þóra Kristín.jpeg
bottom of page