top of page

Reykholtshátíð 2019

Heildardagskrá

 

Föstudagur 26. júlí kl. 20

Opnunartónleikar Reykholtshátíðar

 

Oddur Arnþór Jónsson, barítón

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó


Auður Hafsteinsdóttir, fiðla

Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðla

Anna Magdalena den Herder, víóla

Bryndís Halla Gylfadóttir, selló
 

Kynnir er Guðni Tómasson

 

Efnisskrá opnunartónleika Reykholtshátíðar inniheldur tvo ljóðahluta úr Schwanengesang D. 957 eftir Franz Schubert, annars vegar sjö ljóð Ludwig Rellstab og hins vegar sex ljóð eftir Heinrich Heine. Tvö mögnuð en ólík verk, Dover Beach eftir Samuel Barber sem hann samdi við ljóð Matthew Arnold og Let us Garlands Bring sem Gerald Finzi samdi við ljóð William Shakespeare, brjóta upp Svanasönginn. 


Oddur Arnþór hefur undanfarið skipað sér í fremstu röð klassískra söngvara. Skemmst er að minnast frábærrar frammistöðu hans í einu aðalhlutverkanna í Brothers, óperu Daníels Bjarnasonar en fyrir það hlutverk hlaut hann Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngvari ársins 2018 og tilnefningu til Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaunanna. 

 

Anna Guðný Guðmundsdóttir er fyrir löngu komin í hóp þekktustu listamanna þjóðarinnar. Hún leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kemur reglulega fram sem einleikari og er einn af eftirsóttustu meðleikurum klassískra söngvara hér á landi.  

Dover Beach er samin fyrir barítón og strengjakvartett og hefur ekki heyrst oft hér á landi. Fjórir hljóðfæraleikarar hátíðarinnar þau Auður Hafsteinsdóttir, Helga Þóra Björgvinsdóttir, Anna Magdalena den Herder og Sigurgeir Agnarsson flytja verkið ásamt Oddi Arnþóri Jónssyni en þau Oddur og Anna Guðný flytja önnur verk á efnisskránni. Guðni Tómasson, útvarpsmaður mun síðan veita áheyrendum annars konar innsýn í efnisskrána.


EFNISSKRÁ TÓNLEIKANNA

 

 

Laugardagur 27. júlí

Kórtónleikar kl. 16: Ó, ljúfa sól

 

Kvennakórinn Vox feminae

Stjórnandi: Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað

 

Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður árið 1993 og hefur lengi talist í flokki bestu kvennakóra landsins. Trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum hefur einkennt lagaval kórsins, en jafnframt hefur kórinn lagt rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld. Kórinn flytur hér íslenska efnisskrá, bæði frumsamin lög og þjóðlög – mörg hver í nýjum útsetningum samtímatónskálda. Tónleikarnir bera yfirskriftina Ó, ljúfa sól en á efnisskrá eru verk eftir mörg okkar þekktustu tónskáld eins og Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Báru Grímsdóttur, Snorra Sigfús Birgisson og Hildigunni Rúnarsdóttur.

EFNISSKRÁ TÓNLEIKANNA



 

 

Kammertónleikar kl. 20: Rétttrúnaður og rómantík

Auður Hafsteinsdóttir, fiðla

Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðla

Anna Magdalena den Herder, víóla
Bryndís Halla Gylfadóttir, selló

Sigurgeir Agnarsson, selló
 

Kynnir er Guðni Tómasson

Laugardagskvöld á Reykholtshátíð býður upp á spennandi efnisskrá af sjaldheyrðum en  frábærum verkum sem eiga það sameiginlegt að vera samin af tónskáldum sem voru mikils metin á sínum tíma en eru e.t.v. ekki ýkja þekkt í dag. Hljóðfæraleikarar á kammertónleikunum eru einvalalið tónlistarmanna, fiðluleikararnir Auður Hafsteinsdóttir og Helga Þóra Björgvinsdóttir og sellóleikararnir Bryndís Halla Gylfadóttir og Sigurgeir Agnarsson. Sérstakur gestur á tónleikunum er hollenski lágfiðluleikarinn Anna Magdalena den Herder sem kemur í ár í fyrsta sinn fram á Reykholtshátíð.

 

Franski sellóleikarinn og tónskáldið Jean-Baptiste Barrière starfaði um margra ára skeið við hirð Loðvíks XV konung Frakklands og var talinn einn mesti sellósnillingur þess tíma. Hann samdi einkum fyrir selló og enn þann dag í dag gerir ritháttur hans miklar tæknilegar kröfur til flytjenda. 

 

Á tónleikunum verða flutt tvö verk – Sónata í G-dúr fyrir tvö selló og Strengjaserenaða í C-dúr op. 10 – eftir Ungverjann  Ernst von Dohnányi sem var gríðarlega fjölhæfur og áhrifamikill tónlistarmaður í Evrópu og Ameríku á fyrri hluta 20. aldar. Það var fátt sem honum var ekki til lista lagt er varðaði tónlist. Hann var afburða píanóleikari, stjórnandi, tónskáld og kennari. Á seinni árum hefur svo æ betur komið í ljós hvaða þátt hann lék í að aðstoða tónlistarfólk af gyðingaættum á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar í Ungverjalandi. 

 

Strengjakvartettinn í a-moll eftir Anton Arensky er tileinkaður minningu Tchaikovsky sem hafði verið vinur og lærifaðir Arensky. Kvartettinn hefur þá sérstöðu að hann er skrifaður fyrir fiðlu, lágfiðlu og tvö selló. Sá aukni dimmi hljómur sem fæst með notkun tveggja sellóa er mjög einkennandi fyrir verkið en verkið vitnar bæði í sálmalag úr rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, tónsmíðar Tchaikovsky og rússneskt þjóðlag sem m.a. Mussorgsky og Beethoven notuðu í tónsmíðum sínum. 

Tónlistarsagan er rík af verkum á borð við þau sem við flutt verða á þessum tónleikum – og tónskáldum sem hafa fallið í gleymskunnar dá. Við vonumst til að áheyrendur hrífist með okkur af áður óþekktum tónsmíðum og sögunum sem tengjast þeim.

EFNISSKRÁ TÓNLEIKANNA

 

Sunnudagur 28. júlí kl. 16

Lokatónleikar Reykholtshátíðar: Heimskringla og hetjudáð

 

Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað, sópran

Guja Sandholt, mezzó-sópran
Oddur Arnþór Jónsson
, barítón

Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanó


Auður Hafsteinsdóttir, fiðla

Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðla

Anna Magdalena den Herder, víóla

Bryndís Halla Gylfadóttir, selló

Sigurgeir Agnarsson, selló
 

Kynnir er Guðni Tómasson

Það kennir ýmissa grasa á lokatónleikum Reykholtshátíðar. Tónleikarnir hefjast á að hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar flytja Píanókvintett í f-moll eftir Johannes Brahms, en verkið er oft kallað drottning kammerverka þessa þýska tónjöfurs, enda um stórkostlega tónsmíð að ræða.

 

Eftir hlé fá áheyrendur að heyra sögu Haralds konungs harðráða í öróperunni King Harald’s Saga eftir enska tónskáldið Judith Weir. Texti óperunnar er unninn upp úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar og því hvergi betur við hæfi að hlýða á þetta verk en í Reykholti þar sem Snorri bjó um árabil. Verkið, sem er einungis um 10 mínútur að lengd, er væntanlega stysta ópera sem hefur verið skrifuð, en er engu að síður í þremur þáttum með sérstöku niðurlagi þar að auki.

 

Ljóðaflokkurinn Heimskringla eftir Tryggva M. Baldvinsson við texta Þórarins Eldjárns úr samnefndri ljóðabók slær botninn í Reykholtshátíð 2019. Tryggvi samdi þennan bálk á árunum 1995 til 2005 eftir að hafa heillast af ljóðum Þórarins og þeim húmor og hnyttni sem er að finna í þeim. Tryggvi bregður fyrir sig ýmsum stílbrögðum til að undirstrika innihald textans, við fáum m.a. að heyra leiftrandi tangó, sálmalög og ýmislegt fleira. Tónlist Tryggva fellur meistaralega vel að glettnum ljóðum Þórarins svo nokkuð er víst að tónleikagestir munu ganga út með bros á vör.

Útsetningin sem verður flutt á þessum tónleikum af Heimskringlu var sérstaklega gerð fyrir þetta tilefni. Auður Hafsteinsdóttir fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari annast hljóðfæraleik en söngvarar eru Oddur Arnþór Jónsson barítón og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran.

EFNISSKRÁ TÓNLEIKANNA

bottom of page